Lasermeðferð á Dýralæknastofu Suðurnesja

21.01.2017

Dýralæknastofa Suðurnesja hefur fest kaup á lasertæki og eru starfsmenn stofunnar mjög ánægðir með að geta boðið upp á lasermeðferð sem hefur verið að ryðja sér til rúms í dýralækningum á undanförnum árum.

 

Hvað er lasermeðferð?

Á síðustu árum hefur orðið mikil þróun í búnaði til lasermeðferðar og þekking á áhrifum hennar aukist gríðarlega. Notagildi slíkrar meðferðar er ótvírætt innan dýralækninga og fjöldi rannsókna hefur staðfest jákvæð áhrif hennar. Lasermeðferð byggist í því að ljósbylgjur af tiltekinni bylgjulengd hafa áhrif á líkamsvefi m.a. með því að örva efnaskipti í frumum og þannig flýta fyrir gróanda. Meðferðin fer þannig fram að ljósbylgjum er beint að svæðinu sem á að meðhöndla í nokkrar mínútur í senn og áhrifin á sjúklinginn er þríþætt:

1) Verkjastilling
2) Bólgueyðandi áhrif
3) Aukinn gróandi og vefjanýmyndun

Lasermeðferð er viðbót við aðra hefðbundna meðferð og meðhöndlun sem notuð er í dýralækningum í dag. Meðhöndlun stoðkerfisvandamála svo sem gigtar er líklega þekktust í þessu samhengi en með aukinni þekkingu og reynslu er listinn yfir notkunarmöguleika orðinn mjög langur. Sem dæmi má nota laser við eftirfarandi kvillum með góðum árangri, og með því að bæta slíkri meðhöndlun við hefðbundna meðferð næst árangur á skemmri tíma, dýrið nær skjótari bata og þörf fyrir lyf minnkar:

 • Húðvandamál (með eða án sýkingar)
 • sár
 • eldri sár sem gróa illa
 • skurðir eftir aðgerðir
 • "hot spot“
 • húðbólga á milli táa
 • „sleikisár“
 • vökvasöfnun t.d. yfir olnbogum (hygroma)
 • Eyrnabólga
 • bráð eyrnabólga
 • langvarandi og/eða síendurtekin eyrnabólga
 • Blóðeyra
 • Stoðkerfisvandamál
 • langvarandi liðabólga (gigt)
 • bráð liðabólga
 • tognun í vöðvum, vöðvafestum eða liðböndum
 • beinbrot
 • Endaþarmskirtlabólga/sýking
 • Tannholdsbólga
 • Þvagblöðrubólga

Áður en lasermeðferð hefst skal dýrið skoðað af dýralækni sem tekur ákvörðun um meðferðina og kannar hvort undirliggjandi kvillar séu til staðar.

Hvernig fer lasermeðferð fram og hve oft þarf að meðhöndla?

Fjöldi og tímalengd meðferða fer eftir því sem skal meðhöndla. Væga húðbólgu gæti verið nægilegt að meðhöndla einu sinni (sem viðbót við aðra meðferð) en þegar um er að ræða dýr með stoðkerfisvandamál eins og t.d. gigt þá þarf að setja upp meðferðaráætlun sem felst í því að dýrið kemur nokkuð ört til að byrja með (t.d. þrisvar í viku í 2-3 vikur) og í framhaldinu er viðhaldsmeðferð sem gæti verið einu sinni til tvisvar í mánuði. Hjá sumum einstaklingum er merkjanlegur munur eftir fyrstu meðferðina.

Flestum dýrum líkar meðferðin vel þó þau þurfi kannski tíma til að venjast henni. Ljósbylgjunum er beint á svæðið sem skal meðhöndla ýmist með nokkurra cm fjarlægð eða með því að leggja „laserbeininn“ að húðinni með léttum þrýsingi og svo er hann hreyfður fram og aftur og til hliðar til þess að meðhöndla svæðið sem best. Meðferðin er sársaukalaus og dýrið finnur fyrir þægilegum hita og nuddi.

Fylgir áhætta lasermeðferð?

Þar sem um er að ræða sterkar ljósbylgjur er nauðsynlegt að vernda augu allra sem eru viðstaddir lasermeðferð af þessu tagi. Því eru notuð sérstök verndargleraugu og augu dýrsins skal vernda ýmist með gleraugum eða öðrum hætti. Þar sem laserinn örvar nýmyndun frumna má ekki beita honum á æxli. Þó má meðhöndla aðra líkamshluta dýrsins sé æxli til staðar.

Lasermeðferð PDF