Árleg heilsufarsskoðun gæludýra - hvers vegna?
 
 

Góð heilsa er forsenda vellíðunar og langlífis. Gildir þetta jafnt um menn og dýr. Þar sem ævi hunda og katta er mun styttri en manna eru árlegar heilsufarsskoðanir sérstaklega þýðingarmiklar fyrir þá fyrrnefndu. Fari hundur einu sinni á ári til dýralæknis er það sambærilegt og ef eigandi hans færi í læknisskoðun á fimm ára fresti.

Heilsufarsskoðun felur í sér klíníska skoðun þar sem dýralæknirinn athugar almennt líkamlegt ástand dýrsins. Vægar eyrnabólgur, augnþurrkur, tannvandamál og húðsýkingar eru dæmi um sjúkdóma sem uppgötvast reglulega við slík tilefni og í sumum tilvikum er um að ræða langvarandi ástand sem eigandinn hafði ekki gert sér grein fyrir. Mjög mismunandi er hvernig og að hve miklu leyti dýrin sýna merki um sjúkdóma og geta þau farið mjög leynt. En því fyrr sem hægt er að hefja meðferð við slíkum einkennum því betra.

Auk þess að skoða dýrið með tilliti til heilsufars getur dýralæknirinn ráðlagt um fóðrun, hreyfingu og margt fleira sem snýr að dýrinu. Þónokkuð er um arfgenga sjúkdóma í hundum sem eru bundnir við ákveðnar hundategundir og mikilvægt er fyrir eigendur að gera sér grein fyrir þeim ekki síst ef þeir hafa hugsað sér að para þá. Sem dæmi er cavalier hundum hætt við hjartalokusjúkdómum og hnéskeljalos er fremur algengt hjá papillion og chihuahua.

Að lokum eru dýrin bólusett eftir þörfum og ormahreinsuð en árleg meðhöndlun hunda og katta gegn spóluormum er lögbundin á Íslandi. Smit getur borist í dýr á mismunandi hátt og komi upp sýking er fyrir öllu að lyf séu notuð á réttan hátt. Sem dæmi má nefna að tíkur og læður geta smitað afkvæmi sín á meðgöngu með lirfum sem hafa legið í dvala. Ormalyf ná ekki til slíkra lirfa og því eru mörg dæmi um að hvolpar og kettlingar fæðist með spóluorma í meltingarveginum. Sem betur fer eru ormasýkingar ekki eins algengar hér á landi og víða erlendis. En hætt er við að sú staða breytist ef eigendur vanrækja skyldur sínar.

Öll gerum við okkur grein fyrir mikilvægi góðrar heilsu. Margir leggja mikla rækt við líkama og sál með hreyfingu og góðu mataræði og hafa ýmsar leiðir til að bæta líðan ef veikindi sækja að. Mikilvægt er að dýraeigendur geri sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem fylgir því að eiga dýr og hugi vel að heilsu þeirra.


Hrund Hólm 2014