Bólusetningar hunda og katta
 
 

Hundum og köttum í þéttbýli hefur fjölgað mjög undanfarin ár. Ekki eru margir smitsjúkdómar í dýrum landlægir á Íslandi en þó finnast hér sjúkdómar sem geta valdið nokkrum usla sé ekki gætt að bólusetningum og almennum smitvörnum. Það er því mikilvægt fyrir eigendur hunda og katta að vera á varðbergi gagnvart smitsjúkdómum. Með því að láta bólusetja gæludýrin sín geta eigendur varið dýrin sín gegn veikindum og auk þess haldið smitálaginu í umhverfinu niðri til góða fyrir önnur dýr.

Ónæmiskerfi ungdýra
Spendýr fæðast með óþroskað ónæmiskerfi og eru illa í stakk búin á fyrstu vikum ævinnar til að verjast sýkingum. Hafi móðirin verið bólusett eða fengið smitsjúkdóm, fá afkvæmin mótefni gegn viðkomandi sjúkdómum með móðurmjólkinni. Mótefnin eru í broddinum (mjólkinni sem myndast fyrst eftir fæðingu) og því er mjög mikilvægt að hvolpar og kettlingar komist á spena svo fljótt sem auðið er. Þessi mótefni verja ungdýrin fyrst um sinn en hins vegar hindra þau myndun nýrra mótefna og þess vegna hefur bólusetning sem er framkvæmd of snemma, lítið gildi. Mótefnin frá móður brotna svo smám saman niður en það er einstaklingsbundið hvenær þau eru horfin úr blóði ungdýranna. Hjá sumum hvolpum og kettlingum eru þau horfin við 6 vikna aldur en hjá einstaka dýrum jafnvel ekki fyrr en við 18 vikna aldur. Áður en bólusetning hefst eru þess vegna sum ungdýr algjörlega óvarin gegn sjúkdómum.

Bólusetningar katta
Kettir eru bólusettir gegn veirusjúkdómunum kattafári, kattaflensu og kattakvefi og smitandi kattahvítblæði. Hér á landi er í notkun blandað bóluefni (Leucofeligen) sem inniheldur mótefnavaka gegn öllum þessum sjúkdómum. Mælt er með að kettlingar séu bólusettir fyrst við 8-9 vikna aldur og endurbólusettir u.þ.b. 4 vikum síðar. Eftir það skal bólusetja árlega eða annað hvert ár (mismunandi eftir aðstæðumm). Veiran sem veldur kattafári er náskyld veirunni sem veldur smáveirusótt í hundum og einkennin eru þau sömu, þ.e. uppköst, niðurgangur og ofþornun. Kattaflensa og kattakvef valda augnsýkingum og einkennum frá efri öndunarfærum eins og útferð úr nefi. Í kjölfarið geta bakteríur náð sér á strik og valdið alvarlegri einkennum, sérstaklega hjá kettlingum. Eftir bólusetningu með Leucofeligen getur myndast hnúður á stungustað en alla jafna gengur hann niður á nokkrum dögum eða vikum. Ungir kettlingar geta orðið slappir í 1-2 daga eftir bólusetningu.

Bólusetningar hunda

Bóluefnið Recombitek C4 var tekið í notkun á Íslandi árið 2008. Það veitir vörn gegn 1) smáveirusótt, 2) smitandi lifrarbólgu, 3) hótelhósta og 4) hundafári. Mælt er með að hundar séu bólusettir tvisvar til þrisvar með 2ja til 3ja vikna millibili (grunnbólusetning), aftur ári seinna og svo á tveggja ára fresti.

  • Smáveirusótt er meðal algengustu veirusjúkdóma í hundum í heiminum og getur hún verið lífshættuleg. Veiran (hunda-parvóveira) leggst á meltingarfærin og algengustu einkenni eru uppköst og niðurgangur, gjarnan blóðugur og í kjölfarið fylgir ofþornun. Hvolpar og ungir hundar eru í mestri hættu en fullorðnir hundar fá yfirleitt vægari sjúkdómseinkenni. Smáveirusótt greindist fyrst á Íslandi árið 1992 og allar götur síðan hafa íslenskir hundar verið bólusettir gegn sjúkdómnum.
  • Smitandi lifrarbólga í hundum orsakast af hunda-adenóveiru (teg. 1) og veldur mismunandi einkennum, frá vægum veikindum upp í mjög alvarleg. Í alvarlegustu tilfellunum getur veiran dregið hundinn til dauða á innan við sólarhring. Helstu einkenni eru hálsbólga, hiti, lystarleysi, niðurgangur, uppköst, eymsli í kvið og slappleiki. Talið er að þessi sjúkdómur hafi fyrst borist til Íslands um 1980 en aldrei hefur verið um eiginlegan faraldur að ræða. Bólusetning gegn lifrarbólgu hér á landi hófst árið 1996 en árið 2003 var framleiðslu bóluefnisins hætt og síðan þá hefur lifrarbólgan valdið töluverðum usla hér. Vonandi verður notkun Recombitek C4 til þess að lifrarbólgutilfellum fækkar til muna.
  • Svonefndur hótelhósti er sýking í efri öndunarfærum hunda sem orsakast af nokkrum mismunandi veirum og bakteríum. Af veirunum hefur hunda-parainflúensuveiran þar einna mest að segja en einnig hunda-adenóveira (teg. 2) (Recombitek C4 veitir vörn gegn þessum veirum). Um er að ræða bráðsmitandi sýkingu sem berst hratt á milli hunda t.d. á hundahótelum (þaðan dregur sjúkdómurinn nafnið). Algengustu einkenni eru þurr hósti en lystarleysi, hiti og depurð er oft til staðar. Flestir hundar ná sér eftir 2-4 vikur en ungir hundar og gamlir og/eða ónæmisbældir geta fengið alvarlegri einkenni. Hótelhósti hefur verið staðfestur á Íslandi en lítið er vitað um útbreiðslu sjúkdómsins hér.
  • Hundafár (canine distemper) orsakast af paramyxóveiru (skylt mislingum). Hundafár er mjög alvarlegur sjúkdómur sem smitast hratt á meðal óbólusettra hunda. Algengustu einkennin eru útferð úr augum og nefi, hósti, uppköst, niðurgangur og krampaköst. Margir þeirra sem lifa sjúkdólminn af hljóta varanlegan skaða á sjón og taugakerfi og einnig tönnum. Heimildir eru um að hundafár hafi geisað á Íslandi á seinni hluta 19. aldar en síðasti faraldurinn var árið 1966. Allir innfluttir hundar verða að vera bólusettir gegn hundafári (auk fleiri sjúkdóma) þar sem íslenski hundastofninn er sérstaklega viðkvæmur fyrir þeim sjúkdómi.

 

Hrund Hólm 2008 (uppf. 2015)