Kalkskortur hjá tíkum á meðgöngu
 
 
Kalkskortur hjá nýgotnum tíkum (og læðum) er lífshættulegt ástand sem getur komið fram 1-4 vikum eftir got. Yfirleitt er um að ræða tíkur af litlum hundategundum með marga hvolpa. Í einstaka tilfellum kemur kalkskortur fram í lok meðgöngu. Á fyrstu vikum eftir got þegar mjólkurframleiðsla tíkarinnar eykst, er þörfin á kalki mjög mikil, ekki síst ef afkvæmin eru mörg. Í sumum tilvikum fær móðirin ekki nægilega mikið kalk úr fæðunni og því fer að ganga of mikið á hennar eigin birgðir sem eru nauðsynlegar fyrir eðlilega líkamsstarfsemi.

Einkenni kalkskorts eru hraður andardráttur, eirðarleysi, vöðvakrampar og stífleiki í vöðvum (breytt göngulag). Í alvarlegum tilfellum koma fram krampaflog. Um leið og einkenni koma fram er nauðsynlegt að veita meðhöndlun sem felst í að kalk er gefið í æð og undir húð. Taka þarf hvolpana frá tíkinni í 12-24 tíma og fóðra þá með mjólkurblöndu á meðan.

Til þess að koma í veg fyrir kalkskort af þessu tagi er mikilvægt að tíkin fái gott fóður (hvolpafóður/meðgöngufóður) á meðgöngu og á meðan hún mjólkar. Hún þarf að hafa frían aðgang að fóðri og vatni. Ekki er mælt með að gefa tíkum kalktöflur á meðgöngunni til að koma í veg fyrir kalkskort. Sé það gert getur það í raun stuðlað að kalkskorti þar sem líkaminn er verr í stakk búinn til að framleiða kalk fyrir mjólkurframleiðsluna. Afar mikilvægt er að jafnvægið milli kalks og annarra steinefna í fæðunni riðlist ekki þar sem það hefur áhrif á hversu vel líkaminn getur nýtt steinefnin.

Hafi tík einu sinni fengið kalkskort eru þónokkrar líkur á að það gerist aftur við næsta got og þá má athuga að gefa tíkinni kalk þegar mjólkuframleiðsla er í hámarki (1.-3. vika eftir got), en það ber að gera í samráði við dýralækni.

Hrund Hólm 2009