Flugeldaótti
 
 

Ótti við hávær hljóð eins og flugelda háir fjölda hunda og katta. Eðlilegt er að dýrin verði vör um sig í miklum hávaða en sum sýna ofsahræðslu og geta orðið sjálfum sér og öðrum að voða. Flest reyna að leita skjóls undir húsgögnum eða inni í skápum en dæmi eru um að hundar hafi nagað sig í gegnum veggi af ótta við hávaða.

Almennar ráðleggingar
Ýmislegt er til ráða til að draga úr óttanum. Dýrunum skal haldið innandyra og best er að útbúa aðstöðu í einhverju herbergi þar sem þau þekkja til. Þar skal draga fyrir glugga og hafa ljósið kveikt og einhverja tónlist í gangi þar sem það getur dregið úr hávaðanum sem berst inn. Þetta á jafnt við um hunda og ketti en kettirnir eru yfirleitt fljótir að finna sér felustað sem hentar þeim. Ráðlegt er að tala rólega við dýrin en ekki vorkenna þeim um of. Dýr sem verða mjög hrædd má ekki skilja eftir einsömul. Hvolpum og kettlingum sem eru að upplifa sín fyrstu áramót þarf einnig að sýna sérstaka aðgát. Hræðsla við hávaða eykst oft eftir því sem dýrin eldast.

Notkun kvíðastillandi lyfja
Það hefur færst í vöxt að gefa hundum kvíðalyf á áramótunum. Þó það geti veirð lausn fyrir einhverja hunda er það ekki æskilegt í öllum tilfellum og ekki er mælt með því á fyrstu áramótunum sem dýrin upplifa. Verkun róandi lyfja er mismunandi eftir einstaklingum og fer m.a. eftir aldri, líkamlegu ástandi og skapgerð. Aukaverkanir geta fylgt notkun róandi lyfja og aldrei má skilja dýr eftir ein hafi þeim verið gefin slík lyf. Ávallt skal ráðfæra sig við dýralækni áður en dýrum er gefið róandi lyf.

Lyktarhormón
Lyktarhormón eða svokölluð ferómón (Feliway / D.A.P.) hafa verið notuð með góðum árangri til að draga úr ótta og kvíða af ýmsu tagi hjá hundum og köttum. Þessi efni eru sambærileg annars vegar þeim lyktarefnum sem mjólkandi tík myndar til að sefa hvolpa sína og hins vegar lyktarefnum sem kettir skilja eftir sig t.d. á eigendum sínum þegar þeir nudda andlitinu upp við þá sem er tákn um vellíðan. Lyktarhormónin eru á vökvaformi í íláti sem er stungið í samband í því herbergi sem hundurinn eða kötturinn hefur aðstöðu. Hvert hylki dugar í um 4 vikur en nokkra daga tekur að metta herbergið og því þarf að hefja notkun á lyktarhormónunum með einnar til tveggja vikna fyrirvara.

Við flugeldaótta er semsagt ýmislegt til ráða og gott er að huga að ráðstöfunum með nokkrum fyrirvara. Dagarnir skömmu fyrir áramót geta gefið vísbendingar um hvernig dýrin munu bregðast við þar sem sumir geta ekki beðið eftir gamlársdegi með að byrja að sprengja. Það allra mikilvægasta er þó að sjá til þess að dýrin séu í öruggu umhverfi og njóti stuðnings eigenda sinna.


Hrund Hólm 2010