Hjartasjúkdómar í hundum og köttum
 
 

Hjartasjúkdómar eru algeng ástæða þess að gæludýr deyji eða séu aflífuð fyrir aldur fram. Með lyfjameðhömdlun er þó hægt að lengja líf og bæta lífsgæði hjartveikra dýra. Minnkað þol og öndunarerfiðleikar geta verið vísbending um að hjartað starfi ekki eðlilega. Hér verður fjallað lítillega um hjartað og helstu hjartasjúkdóma í hundum og köttum.

Hjartað samanstendur af fjórum hólfum, hægri gátt og slegli og vinstri gátt og slegli. Súrefnissnautt blóð kemur frá öllum hlutum líkamans til hægri gáttar og niður í hægra hvolf. Þaðan er blóðinu dælt í gegnum lungnaslaæðina til lungna þar sem það losar sig við koltvísýring og tekur til sín súrefni. Súrefnisríkt blóð kemur svo frá lungunum til vinstri gáttar og slegils og er þaðan dælt út í ósæðina og færir öllum vefjum og líffærum súrefni.

Hjartasjúkdómar í gæludýrum eru annað hvort meðfæddir eða áunnir. Sem dæmi um meðfædda hjartasjúkdóma má nefna opna fósturæð, þ.e. op á milli ósæðar og lungnaslagæðar (algengasti meðfæddi hjartagallinn í hundum) og op á milli slegla (algengasti meðfæddi hjartagallinn í köttum). Það veltur á því hversu alvarlegur gallinn er hvort hann uppgötvast við almenna skoðun eða hvort og hvenær sjúkdómseinkenni koma fram. Dýr sem fæðast með alvarlega hjartagalla þrífast illa, þyngjast hægt og hafa lítið þol. Úrræði eru fá en í sumum tilfellum er hægt að meðhöndla einkennin með lyfjum. Hjartaaðgerðir á dýrum hafa hingað til ekki verið framkvæmdar á Íslandi.

Áunnir hjartasjúkdómar eru mun algengari en meðfæddir. Tíðnin er afar misjöfn eftir hunda- og kattategundum. Sem dæmi um áunna hjartasjúkdóma má nefna hrörnun í hjartalokum, ofþykknun á hjartavöðva og hjartavöðvaslen.

Hjartalokuhrörnun er einn algengasti áunni hjartasjúkdómurinn í hundum og finnst hann aðallega í smáhundum og sér í lagi hjá Cavalier King Charles Spaniel. Sjúkdómurinn greinist oftar í rökkum en tíkum. Orsökin er óþekkt en sýnt hefur verið fram á arfgengi. Um er að ræða þykknun og afmyndun á hjartalokunum á milli vinstri gáttar og slegils sem veldur því að hluti blóðsins rennur til baka úr slegli í gátt. Sjúkdómurinn er langvinnur og einkenni koma yfirleitt ekki fram fyrr en eftir 6-7 ára aldur þó svo að aukahljóð á hjarta geti greinst 2-3 árum fyrr. Einkennin eru m.a. minnkað þol, hósti (næturhósti), öndunarerfiðleikar vegna lungnabjúgs og jafnvel yfirlið.

Ofþykknun á hjartavöðva (hypertrophic cardiomyopathy) er algengasti hjartasjúkdómurinn hjá köttum. Um er að ræða arfgengan sjúkdóm sem finnst bæði í húsköttum og hreinræktuðum köttum eins og persum og Maine Coon. Einkenni eru afar breytileg en öndunarörðugleikar koma yfirleitt fram. Þverrandi þol er erfitt að greina hjá köttum. Blóðtappar geta myndast og valdið lömun, sérstaklega á afturfótum.

Hjartavöðvaslen (dilated cardiomyopathy) sést helst hjá stórum hundategundum eins og stóra Dana, írskum úlfhundi, doberman og boxer (einnig hjá cocker spaniel). Í þessum tilfellum þynnist hjartavöðvinn og nær ekki að dragast saman að fullu og getur því ekki pumpað blóðinu um líkamann sem skyldi. Einkenni koma oftast fram þegar hundurinn er miðaldra en þau eru m.a. öndunarerfiðleikar, hósti, minnkað þol og þyngdartap. Þessi sjúkdómur getur einnig valdið skyndidauða.

Meðhöndlun á hjartasjúkdómum felst í flestum tilfellum í að minnka lungnabjúg og síðan að auka starfsgetu hjartans. Óraunhæft er að reikna með bata en einkenni eru meðhöndluð og lífsgæði dýrsins þar með aukin. Mikilvægast er þó að taka hjartasjúkdóma með í reikninginn í ræktunarstarfi og rækta ekki undan dýrum sem vitað er að hafi hjartasjúkdóm.

 

Hrund Hólm 2008