Húðvandamál hjá hundum af völdum exems / ofnæmis (14. ágúst 2015)
 
 

Exem orsakast af arfgengu ofnæmisástandi gagnvart ofnæmisvökum í umhverfi. Um er að ræða bólgu í ystu lögum húðarinnar sem ekki er af völdum baktería eða veira og því ekki sýking.

  • Exem og ofnæmi er algengt vandamál meðal hunda. Einkennin eru ýmis húðvandamál eins og kláði og roði í húð. Þegar dýrin klóra sér veldur það skaða á húðinni og kláðinn eykst. Langvinn eyrnabólga getur verið eina einkenni ofnæmis.
  • Hundarnir klóra sér t.d. í eyrunum (hrista höfuðið) og á kviðnum, nudda andlitinu við gólf eða húsgögn. Sumir fá útferð úr nefi og augum og aðrir sleikja á sér loppurnar sem skilur eftir sig brúnleita bletti á feldinum. Í sumum tilfellum versna einkennin, kláðinn eykst, það myndast sár, hrúður og sýkingar og húðin þykknar og dökknar.
  • Í stuttu máli má segja að ofnæmisvaldurinn (sem getur t.d. verið frjókorn, efni eins og ull eða ákveðnar fóðurtegundir eða flóabit) hefur þau áhrif að tilteknar frumur í húðinni framleiða efnasambönd sem valda húðbólgu.
  • Einkennin koma yfirleitt fram á fyrstu æviárum hundsins. Upphaflega getur ofnæmisvaldurinn verið vel skilgreindur (t.d. frjókorn) en með tímanum getur ofnæmið aukist, þ.e. hundurinn fær ofnæmi fyrir fleiri þáttum auk þess sem einkennin geta versnað.

Meðhöndlun felst fyrst og fremst í að fjarlægja orsakavaldinn. Það getur verið langt ferli og stundum þarf að láta gera ofnæmispróf og oft þarf að setja hundinn á ofnæmisfóður. Sjúkrasjampó er mikilvægur þáttur í meðferðinni en auk þess að fjarlægja hugsanlega ofnæmisvaka úr feldinum byggja þau upp varnir húðarinnar. Ef einkenni eru alvarleg og hundinum líður illa þá er oft byrjað að bæla niður einkennin með lyfjum sem hafa áhrif á ónæmiskerfið.

Ofnæmisfóður. Erfitt getur verið að einangra ofnæmisvakana og ef búið er að útiloka þætti eins og frjókorn og flær beinist athyglin oft að fóðrinu. Margar tegundir hundafóðurs eru til á markaðinum og er gæðamunurinn á þeim mjög mikill. Sérstakt ofnæmisfóður (t.d. Royal Canin Hypoallergenic og Hill‘s z/d) er oft notað til að útiloka fóðurofnæmi. Við framleiðslu þess er búið að brjóta upp próteinkeðjurnar með þeim hætti að próteinin geti ekki sest á frumuviðtakana og þannig valdið húðbólgunni. Þegar fóðrað er með ofnæmisfóðri er nauðsynlegt að gera það í amk 3 vikur og mikilvægt er að gefa hundinum enga aukabita samhliða því.

Ofnæmispróf er hægt að láta framkvæma með blóðprufu. Kannaðir eru um 90 þættir í umhverfinu sem algengast er að hundar hafi ofnæmi fyrir, eins og t.d. gras- og trjátegundir, ýmsar fóðurtegundir, flugur o.fl. Ef þörf krefur er í framhaldi af því hægt að láta útbúa sérstakt lyf út frá niðurstöðunum sem hundurinn er svo meðhöndlaður með. Um er að ræða svokallaða afnæmingu. Sprauta þarf hundinn jafnt og þétt (fyrst annan hvern dag og svo lengist millibilið, í lokin líður mánuður á milli sprauta) á 8 mánuðum. Á meðan meðhöndlun stendur yfir getur verið að þurfi að meðhöndla hundinn jafnframt gegn ofnæmiseinkennum. Það tekur því nokkurn tíma þar til árangur afnæmingarinnar kemur fram. Hafi meðferðin borið tilætlaðan árangur er henni fram haldið með viðhaldsmeðferð.

Lyf til meðhöndlunar ofnæmis beinast að ónæmiskerfinu. Helst má nefna barkstera sem eru öflug bólgueyðandi lyf og andhistamín en báðir þessir lyfjaflokkar hafa kláðastillandi og ónæmisbælandi verkun. Barksterunum fylgja ýmsar aukaverkanir og því er mikilvægt að finna réttan skammt fyrir hvern einstakling. Oftast er byrjað með frekar stóran skammt og hann svo minnkaður smátt og smátt. Sýklalyf eru notuð til að meðhöndla sýkingar sem komið hafa í kjölfar ofnæmisins. Staðbundin meðferð með sterakremum og eyrnalyfjum er oft nauðsynleg.

Fitusýrur (omega-3) hafa fengið aukna athygli undanfarin ár sem hluti af meðhöndlun exems. Þessar fitusýrur eru mikilvægar til eiginframleiðslu líkamans á efnasamböndum sem stuðla að góðu ónæmiskerfi og heilbrigðri húð. Sem dæmi má nefna selaolíu fyrir hunda sem hellt er yfir matinn daglega.

Mikilvægt er að eigendur hunda með exem/ofnæmi átti sig á því að ekki er hægt að lækna dýrin af sjúkdómnum en hægt er að bæla niður einkennin með ýmsum ráðum. Slæm einkenni geta valdið hundunum töluverðri vanlíðan.

 

Hrund Hólm ágúst 2015