Sauðfjársjúkdómar
 
 

Á hverju vori fæðast hátt í þúsund lömb á Suðurnesjum. Sauðfjárbændum er umhugað um heilsu fjárins og að mörgu er að huga. Hér er stiklað á stóru um algenga sjúkdóma í tengslum við sauðburð.

Lambasjúkdómar af völdum Clostridium baktería
Clostridium bakteríur sem finnast í jarðvegi og í nánasta umhverfi sauðfjár eiga greiða leið að nýbornum lömbum og geta valdið þungum búsifjum sé forvörnum gegn þeim ekki sinnt. Á Keldum er framleitt svokallað blandað bóluefni sem er þríþætt og veitir vörn gegn lambablóðsótt, flosnýrnaveiki/garnapest og bráðapest.

  • Lambablóðsótt leggst á 2ja til 3ja daga gömul lömb (ekki eldri en tveggja vikna) og þau fá blóðblandaðan niðurgang og miklar kvalir, stynja og fetta jafnan höfuðið aftur. Veikindin standa stutt og lömbin deyja innan fárra klukkutíma.
  • Flosnýrnaveiki gefur svipuð einkenni og lambablóðsótt. Lömbin þembast einnig upp og oft má sjá froðu í munnvikum. Yfirleitt er um að ræða lömb eldri en tveggja vikna sem eru vel á sig komin sem veikjast.
  • Bráðapest kemur upp hjá 2ja til 3ja vikna gömlum lömbum og finnast þau oft dauð án þess að veikinda verði vart. Sterka ólykt leggur gjarnan frá veikum lömbum, en miklar blæðingar verða í görnum. Bólusetja skal fengnar ær gegn ofannefndum þremur sjúkdómum hálfum mánuði áður en sauðburður hefst. Ær sem ekki hafa verið bólusettar áður skal bólusetja tvisvar með 10-14 daga millibili (fyrri bólusetning mánuði fyrir burð). Ef þessir sjúkdómar koma samt sem áður upp skal bólusetja eftirlifandi lömb eða gefa þeim sermi.

Bóluefnið er ætlað fengnum ám, þær mynda mótefni og skila þeim áfram til lambanna í broddmjólkinni. Frásog mótefnanna í görnum lambanna verður einkum fyrstu 36 klst eftir burð og því er mikilvægt að lömbin fái brodd sem fyrst. Bóluefnið skal gefið sem hér segir:

  • Mánuði fyrir sauðburð og aftur 10-14 dögum síðar, 2 ml undir húð.
  • Þar sem smitálag er lítið: eldri ærnar sprautaðar aðeins einu sinni, um 14 dögum fyrir burð
  • Þar sem sjúkdómarnir hafa komið upp er skynsamlegt að bólusetja yngra fé einu sinni (veturgamalt) til tvisvar (ásetningslömb) á haustin stuttu eftir að það kemur af fjalli (svo fengnar ær einu sinni að vori)
  • Ávallt skal gæta hreinlætis við bólusetningu og skipta reglulega um nálar.

Selenskortur
Snefilefnið selen skortir víða í jarðvegi á Íslandi. Best þekkta birtingarmynd selenskorts hjá sauðfé er hið svokallaða stíuskjögur. Einkenni geta komið fram hjá nýbornum lömbum eða síðar og oft þegar lömbin eru sett út. Þau verða stirð og vilja helst liggja. Ástæðan er meðfædd, móðirin hefur ekki fengið nægilega mikið selen á meðgöngunni. Meðhöndlun felst í selengjöf og batahorfur eru góðar hefjist meðhöndlun nægilega snemma.
Reynslan og rannsóknir hafa sýnt að selen hefur jákvæð áhrif á frjósemi og burð. Selen er hægt að nálgast á ýmsan hátt, bæði óbeint í gegnum túnin með áburði og beint með saltsteinum, öðrum fóðurbæti og í formi stungulyfs. Til að forðast eitranir er mikilvægt að nota ekki alla möguleikana en til þess að vera viss um að hver kind (líka hrútarnir!) fái nægilegt magn á þessum viðkvæma tíma (fengitíma og sauðburði) er æskilegt að nota stungulyf. Þá mætti sprauta allt féð að hausti og svo fengnar ær að vori (um 3-4 vikum fyrir burð) eða um leið og bólusett er . Fullorðnum kindum er gefið 5 ml (Selevitan) en lömbum 2 ml í vöðva.

Doði (kalkskortur)
Þegar líður að burði og fyrst eftir burð er kalkþörf ánna mikil og hætta er á kalkskorti. Sé aðbúnaður ekki nægilega góður (óregla á fóðrun, steinefnasnautt fóður, streita hvers konar) eykur það líkurnar á doða. Algengt er að fleiri en ein ær í hjörðinni fái doða á svipuðum tíma. Einkenni eru stífleiki/skjálfti í útlimum, máttleysi, köld eyru og granir, ærnar leggjast stundum niður og geta þembst upp. Meðhöndlun: kalk (calci-kel). Sé það gefið undir húð má gefa 100 ml í senn, dreift á 2-3 staði. Ærin tekur við sér innan 30 mínútna. Ef þörf krefur má endurtaka kalkgjöf 6 tímum síðar. Án meðhöndlunar geta ær drepist á 6-12 tímum úr doða.

Graskrampi (magnesíumskortur)
Graskrampi sést helst þegar lambfé kemur af húsi yfir á gras í mikilli sprettu. Ærnar verða stirðar og hvumpnar og míga oft. Meðhöndlun felst í magnesíumblöndu sem gefin er í æð (dýralæknir).

Sníkjudýr
Þráðormar í meltingarvegi og lungum sauðfjár eru landlægir á Íslandi. Helstu einkenni smitaðra dýra eru vanþrif, skita og hósti. Mikilvægt er að ormahreinsa féð reglulega og dectomax stungulyf útrýmir ofangreindum þráðormum auk kláðamaurs sem verður vart annað slagið. Nokkrar tegundir fljótandi ormalyfs (mixtúru) eru fáanlegar en mælt er með að nota mismunandi ormalyf til skiptis til að minnka líkur á myndun ónæmis.

Garnaveiki
Garnaveiki er langvinnur og ólæknandi smitsjúkdómur í jórturdýrum sem orsakast af bakteríu sem er náskyld berklabakteríunni. Á svæðum þar sem garnaveikinni hefur ekki verið útrýmt er skylt að bólusetja öll lömb og kið. Ungviðið fær mótefni frá móður sem endist því fram á haust og bólusetningu skal framkvæma fyrir áramót. Dýralæknar annast bólusetningu gegn garnaveiki og skila skýrslum um slíkt til viðkomandi héraðsdýralæknis.

Kólísýkingar / slefa hjá lömbum
Meðal annarra sjúkdóma sem jafnan hrjá unglömb má nefna niðurgang sem getur verið av völdum E.coli eða annarra umhverfissýkla. Í slíkum tilfellum er nauðsynlegt að veita góða stuðningsmeðferð og koma í veg fyrir vökvatap og hitatap. Síðan er mikilvægt að koma jafnvægi á þarmaflóruna á ný en það má til dæmis gera með því að gefa Prolac sem hefur gefið mjög góða raun. Í einhverjum tilfellum er meðhöndlun með sýklalyfjum nauðsynleg og slíkt skal gert í samráði við dýralækni. Í lokin skal nefna slefsýki en það er kólísýking sem kemur fram á fyrsta sólarhringnum og getur verið afar erfitt að meðhöndla. Slefsýki sést helst hjá veiklulegum lömbum sem fá ekki nægilegan brodd í upphafi. Lömbin verða dauf, hætta að sjúga og deyja innan sólarhrings sé ekkert að gert. Þeim þarf að gefa sýklalyf og sykur/saltlausn í magaslöngu og hjúkra vel þar til þau fara að sjúga sjálf. Þar sem bændur hafa orðið varir við slefsýki hefur reynst vel að gefa lömbunum prolac um leið og þau fæðast, það virðist geta komið í veg fyrir að sýkingin nái fótfestu.

Forvarnir eru alltaf besta meðferðin ef svo má segja og stærsti liðurinn í forvörnum er góður aðbúnaður. Þá er m.a. átt við gott fóður, aðgang að hreinu vatni, hrein fjárhús með góðri loftræstingu og góða umönnun þar sem smitvarnir eru viðhafðar. Séu veik dýr í húsinu skal einangra þau eins og kostur er.

 

Hrund Hólm 2014