Kynþroski, lóðarí, meðganga og got (tíkur)
 
 

Kynþroski
Algengast er að tíkur verði kynþroska og lóði í fyrsta sinn á aldrinum 5 til 12 mánaða. Nokkur munur er á milli hundategunda, þ.e. því stærri tegund því seinna verða tíkurnar kynþroska. Tíkur af mjög stórum tegundum byrja jafnvel ekki að lóða fyrr en tveggja ára gamlar. Meðalaldur karlhunda þegar þeir ná kynþroska er 5 mánuðir. Ekki er æskilegt að para tík yngri en tveggja ára.

Lóðarí
Flestar tíkur lóða tvisvar á ári eða með 5-8 mánaða millibili. Lóðarí hefst með blæðingum sem standa að jafnaði í 5-9 daga. Ytri kynfæri tíkarinnar bólgna og rakkar sýna henni áhuga en hún er ekki tilbúin að standa undir. Að loknum blæðingum tekur við tímabil þar sem tíkin stendur undir hundinum og egglos á sér stað og frjóvgun getur orðið. Þetta tímabil stendur einnig í um 5-9 daga. Blæðing er mismikil og tíkurnar eru misduglegar við að þrífa sig. Í sumum tilfellum sérstaklega ef um er að ræða mjög unga eða frekar gamla tík getur lóðarí verið nánast einkennalaust og farið framhjá eigandanum. Ef ráðgert er að para tíkina er stundum nauðsynlegt að vita hvar hún er stödd í ferlinu. Þá er hægt að láta taka frumustrok úr leggöngum tíkarinnar og/eða blóðprufu til að komast að því hvenær egglos verður og dýralæknirinn metur út frá því hvenær best er að para hana.

Ófrjósemisaðgerðir
Til þess að koma í veg fyrir að tík lóði og geti orðið hvolpafull er hægt að gefa henni hormónalyf reglulega eða gera hana ófrjóa með skurðaðgerð. Lyfin sem um ræðir eru hormónalyf á stungulyfsformi sem gefa þarf með 5 mánaða millibili eins lengi og áhrifa er óskað. Ekki er lengur mælt með notkun þessa lyfs þar sem það eykur líkur á júgurkrabbameini en júgurkrabbamein er meðal algengustu krabbameina í hundum.

Geldingastautar (hormónalyf) sem notaðir hafa verið fyrir rakka eru stundum notaðir til að fresta lóðaríi hjá tíkum. Þeir eru taldir öruggari en stungulyfið sem nefnt er hér að framan. Tíkurnar byrja á því að lóða eftir að hafa fengið stautinn en lóða svo ekki í 6-12 mánuði (jafnvel lengur).

Í ófrjósemisaðgerð felst að eggjastokkarnir eru fjarlægðir og í sumum tilfellum einnig legið. Hægt er að framkvæma ófrjósemisaðgerðir á tíkum áður en þær lóða í fyrsta sinn. Séu þær orðnar kynþroska er mikilvægt að aðgerðin sé framkvæmd amk 3 mánuðum eftir að síðasta lóðarí hófst. Séu tíkur teknar úr sambandi fyrir fyrsta lóðarí minnka líkur á júgurkrabbameini nánast niður í núll. Ekki eru vísbendingar um að ófrjósemisaðgerðir hafi neikvæð áhrif á atferli eða andlega líðan tíka. Né heldur er það talið nauðsynlegt fyrir tíkur að eignast hvolpa einu sinni.

Meðganga
Eðlileg meðgöngulengd hjá tíkum er rétt um tveir mánuðir, nánar tiltekið 63 dagar plús/mínus tveir dagar og er þá talið frá pörun (fyrstu pörun ef tíkin er pöruð oftar en einu sinni). Fljótlega eftir árangursríka pörun geta sumar tíkur farið að sýna breytta hegðun, þær verða rólegri og sækja meira í eigendur sína og vilja síður leika sér. Eðlilegt er að tíkurnar hafi einhverja útferð úr sköpum (gráleitt slím) alla meðgönguna en ef litur eða lykt af útferðinni breytist er hugsanlegt að um sýkingu sé að ræða. Júgur og spenar fara að stækka 2-3 vikum eftir pörun og mjólkurframleiðsla getur hafist allt að viku fyrir got. Sumar tíkur kasta eitthvað upp á tímabilinu. Hárlos getur aukist mikið (það mun amk gera það eftir að tíkin gýtur). Matarlystin eykst yfirleitt en gæta þarf þess að veita hvolpafullum tíkum ekki frjálsan aðgang að fóðri þar sem þær geta auðveldlega fitnað um of. Ekki er þörf á að auka magn fóðurs fyrr en um mánuði eftir pörun. Auk þess er hægt að skipta yfir í orkuríkara fóður. Í lok meðgöngunnar skal gefa tíkinni fleiri máltíðir á dag en minna í einu.

Gerviólétta
Svokölluð gerviólétta er ástand sem margar tíkur ganga í gegnum. Þær sýna einkenni þess að vera hvolpafullar, fá aukna matarlyst, verða kviðmeiri, júgrið stækkar og mjólkurframleiðsla fer jafnvel í gang. Sumar virðast undirbúa got, búa sér til hreiður og verða eirðarlausar og taka að sér ýmsa hluti (t.d. bangsa) 4-6 vikum eftir lóðarí. Þetta skýrist að hluta til af því að styrkur meðgönguhormónsins er mjög hár í blóði tíka eftir lóðarí, í sumum tilfellum jafn hár og hjá tíkum sem eru hvolpafullar. Hætt er við því að tík sem verður gerviólétt einu sinni, verði það einnig á næsta lóðaríi. Sumar tíkur þurfa meðhöndlun vegna þessa ástands.

Er tíkin hvolpafull?
Ef grunur leikur á um að tík sé hvolpafull er æskilegt að ganga úr skugga um það til að gera ráðstafanir vegna tíkurinnar sjálfrar og væntanlegra hvolpa. Ef um slysapörun er að ræða getur þurft að framkalla fósturlát en hægt er að gera það með lyfjum fram til 45. dags meðgöngu. Þó ber að athuga að slíkri aðgerð geta fylgt aukaverkanir. Dýralæknar geta greint meðgöngu hjá tíkum með nokkrum aðferðum en ekki fyrr en í fyrsta lagi þremur vikum eftir pörun. Þó geta tíkur sem eru órólegar eða í góðum holdum gert slíkar skoðanir erfiðar. Þreifing á kvið er einföld aðferð sem dugar í sumum tilfellum. Ómskoðun (sónar) er hægt að framkvæma rúmlega þremur vikum eftir pörun og hægt er að greina hjartslátt eftir 24. dag meðgöngu. Ómskoðun er ekki hentug aðferð við að telja fóstur. Röntgenmyndataka er einnig notuð en helst til að staðfesta meðgöngu og telja fóstur eftir dag 45.

Got
Þegar líður að goti þarf að huga að undirbúningi fyrir komu hvolpanna. Í herberginu sem ráðlagt er að tíkin gjóti skal útbúa gotkassa (eða afstúkað rými) með góðum fyrirvara og leyfa tíkinni að venjast honum. Kassinn (rýmið) skal vera það stór að tíkin nái að teygja úr sér og snúa sér við og hliðarnar ekki það háar að hún eigi í vandræðum með að komast yfir þær. Gott er að einangra gólfið með dagblaðspappír eða teppum sem draga í sig vökva. Einnig er mikilvægt að hlýtt sé hjá hvolpunum og hægt er að verða sér úti um hitalampa og hengja yfir gotkassann. Nýfæddir hvolpar geta ekki sjálfir stjórnað sínum líkamshita og eru mjög háðir umhverfishitanum. Ofkæling hvolpa er lífshættuleg.

Síðustu dagana fyrir got verða breytingar á líkamshita tíkurinnar. Eðlilegur líkamshiti hunda er í kringum 38,5°C en á þessum tíma fer hitinn að lækka og u.þ.b. hálfum til einum sólarhring áður en fyrsti hvolpurinn fæðist getur hitinn farið niður fyrir 37°C. Því getur verið gott að byrja að mæla tíkina tvisvar á dag 3-4 dögum fyrir áætlað got. Hitinn hækkar svo aftur áður en fyrsti hvolpurinn fæðist.

Hjá hundum skiptist fæðingin í þrjú stig eins og hjá öðrum spendýrum; útvíkkunartímabil, rembingstímabil og fæðing fylgjunnar. Þegar hríðar byrja (og leghálsinn fer að opnast) verður tíkin óróleg og eirðarlaus og andar hratt. Hún hefur litla matarlyst en getur þurft að pissa og slím getur lekið frá sköpum. Misjafnt er hversu langan tíma útvíkkunartímabilið tekur, það geta verið nokkrar klukkustundir allt upp í einn og hálfan sólarhring án þess að nokkuð sé óeðlilegt. Þegar sést í fyrsta fósturbelginn er rembingstímabilið hafið. Tíkin hefur enn hríðar og rembist samhliða til að ýta hvolpunum út. Hvolparnir geta komið út með höfuðið á undan eða öfugt, hvoru tveggja er eðlilegt. Þeir fæðast ýmist í belgnum eða ekki en oftast springur belgurinn í fæðingarveginum. Hvolparnir geta komið með nokkurra mínútna millibili eða það geta liðið nokkrir klukkutímar á milli, sérstaklega þegar líða tekur á. Hver hvolpur hefur sína fylgju sem fæðist fljótt á eftir hvolpinum en tíkin étur gjarnan fylgjurnar. Ágætt er að leyfa henni að éta tvær þrjár til að byrja með en fjarlægja þær síðan lúmskt til að koma í veg fyrir að hún fái niðurgang. Flestar tíkur eru duglegar að kara hvolpana og bíta naflastrenginn í sundur en stundum þarf að aðstoða þær og þá skal binda naflastrenginn með bómullartvinna u.þ.b. 1 cm frá naflanum. Einnig getur reynst nauðsynlegt að hreinsa slím og vökva frá vitum hvolpanna.

Mikilvægt er að það sé rólegt á meðan á fæðingunni stendur og að ekki of margir séu að snúast í kringum tíkina. Hún skal hughreyst með rólegri röddu en ekki skal grípa inn í fæðinguna nema ástæða sé til. Gott er að hjálpa henni með hvolpana og koma þeim á spena en leyfa henni annars að sjá um þetta að mestu leyti sjálf.

Hrund Hólm 2009