Ormasýkingar í hrossum
 
 

Innyflaormar finnast í öllum hrossum en í mismiklu magni og valda mismiklu tjóni. Mest er vandamálið í trippum og hestum yngri en 5 vetra þar sem ormasýking getur komið niður á þroska og vexti. Með aldrinum myndar hesturinn visst ónæmi gegn ormunum. Lirfur sumra ormategunda flakka um líffæri hestsins og skaða þau og geta slíkar skemmdir valdið hrossasótt seinna meir. Meðferð gegn ormasýkingum beinist að því að halda ormasmiti í lágmarki og mikilvægt er tekið sé mið af aðstæðum þegar ormalyf er valið.

Í hrossum hér á landi eru þekktar 33 tegundir innri sníkjudýra; 29 tegundir þráðorma, ein bandormstegund og 3 tegundir frumdýra (einfrumunga). Hér verður fjallað um helstu ormategundir.

ÞRÁÐORMAR

Stórir dreyrormar
Stórir dreyrormar eru 2-5 cm að lengd. Þeir eru skæðustu ormarnir þar sem lirfur þeirra flakka um líffæri, m.a. slagæðar í garnahengi og geta þar valdið stíflum sem leitt geta til blóðtappa. Slíkt getur valdið drepi í þörmum, hrossasótt og jafnvel dauða. Breytingar af völdum stórra dreyrorma hafa sést í íslenskum folöldum að hausti. Fullorðnu ormarnir halda sig í botnlanga og stórlanga og sjúga þar blóð úr slímhúðinni og sé um marga orma að ræða getur sýkingin valdið blóðleysi.

Lífsferill: Egg berast út með saur og lirfurnar klekjast út við hentug skilyrði (8-38°C). Lirfurnar hafa hamskipti tvisvar sinnum og þriðja stigs lirfur eru smithæfar. Þessi ferill utan hestsins tekur viku við bestu skilyrði að sumri til. Hrossin innbyrða 3. stigs lirfurnar með grasi og í þarmaslímhúðinni verða þær að 4. stigs lirfum sem síðan brjótast inn í æðar í þarmaveggnum og berast til æða garnahengisins (21 degi eftir smit). Þar hafa lirfurnar enn önnur hamskipti og verða loks að fullorðnum ormum sem brjótast svo inn í þarmana að nýju og verpa eggum sem eru svo aftur skilin út með saur. Þróunarferillinn innan hestsins tekur 7-9 mánuði.

Litlir dreyrormar
Litlir dreyrormar sem eru um 1 cm að lengd, eru algengastir og finnast oft í miklu magni (tugum þúsunda eða fleiri). Ormarnir halda sig í botnlanga og stórlanga og lirfurnar grafa sig í þarmaslímhúðina og valda þar bólgu. Litlir dreyrormar eru algeng orsök krónískra vanþrifa. Lífsferill lítilla dreyrorma er stuttur, um 2 mánuðir, og þeir verpa miklum fjölda eggja.

Lífsferill: Egg berast út með saur (við mikið smitálag geta verið 1000-2000 egg í einu grammi af taði). Eggin klekjast út og lirfurnar hafa tvisvar hamskipti áður en þær verða smithæfar. Þegar þriðja stigs lirfur berast inn í meltingarveg hestsins grafa þær sig í slímhúð stórlanga og botnlanga. Þar þroskast þær og verða að 4. stigs lirfum sem síðan brjótast út og verða að fullorðnum ormum sem verpa eggjum. Þessi þróunarferill tekur aðeins um 2 mánuði þannig að sumri til geta hrossin tvisvar sinnum skilið út egg lítilla dreyrorma og aukið þannig smit í beitinni mikið.

Hrossaspóluormur
Spóluormur hestsins er stærsti ormurinn, um 15-20 cm langur og er skaðlegastur folöldum og trippum. Eftir smit bora lirfurnar sig í gegnum görnina og berast til lifrarinnar og þaðan í gegnum lungun, upp í kok og er svo kyngt og þroskaferlið heldur áfram í görnunum. Ormarnir geta náð gífurlegum fjölda og garnirnar geta bókstaflega rifnað vegna þeirra. Einkenni smits með hrossaspóluormi eru helst vanþrif og skertur vöxtur, einnig sjást hóstaköst og brúnleit útferð úr nösum hjá folöldum vegna ferðalags lirfanna.

Lífsferill: Egg berast út með saur og verða smithæf við hagstæð skilyrði á 1-2 vikum. Þau klekjast svo út í mjógörn hestsins, ferðast í gegnum lifur, lungu og svo aftur kyngt og verða fullþroska á 2-3 mánuðum. Egg þessa orms eru afar lífseig í umhverfi hrossa, í högum og í og við hesthús og geta "lifað af" í mörg ár.

Hrossanjálgur
Hrossanjálgur er fremur algengur en tiltölulega skaðlítill. Hann sést helst hjá folöldum og trippum.

Fullorðnu ormarnir lifa á garnainnihaldi í stórlanga og endagörn og kvendýrið (sem verður 10-12 cm langt) verpir við endaþarmsop. Þetta veldur hrossunum gífurlegum kláða og nudda þau afturendanum við staura o.fl. Úfinn stertur er dæmigert einkenni hrossanjálgsins.

Lífsferill: Kvendýrið verpir við endaþarmsop og eggin berast þaðan út í umhverfið og geta orðið smithæf á 3-5 dögum. Eftir upptöku klekjast 3. stigs lirfur út í smáþörmum og berast í stórlanga og botnlanga, hafa hamskipti og þroskast í fullorðna orma. Þróunarferillinn tekur um 4-5 mánuði.

Folaldaormur
Folaldaormurinn (tæplega 1 cm að lengd) berst með móðurmjólkinni til folaldsins á fyrstu dögum og vikum ævinnar og getur valdið niðurgangi, uppþornun og þyngdartapi. Folöld mynda ónæmi gegn þessum ormi 4-6 mánaða og smitast ekki á ný.

Lífsferill: Í merum finnast lirfustig ormsins í líffærum og vefjum og við köstun virkjast lirfurnar og berast í mjólkurkirtlana og því smitast folöld strax á fyrstu sólahringum ævinnar. Í folöldunum verða lirfurnar fullþroska (eftir ferðalag um líffæri). Fullþroska ormar verpa eggjum sem berast út með saur og klekjast út í smithæfar fyrsta stigs lirfur á tveimur sólarhringum.

BANDORMAR

Hrossabandormur
Hrossabandormur er um 8 cm að lengd og 1 cm að breidd og finnst bæði hjá folöldum og eldri hrossum. Hann sýgur sig fastan á mörkum mjógirnis og botnlanga. Í alvarlegum sýkingum getur bandormurinn valdið skaða á görnum (m.a. sýkingum og garnasmokkun) og þ.a.l. hrossasótt. Hross smitast með því að fá í sig millihýsil ormsins sem er lítill áttfætlumaur í grasi.

Lífsferill: Smituð hross skilja út egg í haganum og þau eru étin af örsmáum áttfætlumaurum sem finnast í miklu magni í graslendi. Eggin klekjast út í smithæft lirfustig í maurnum, hann er svo étinn af hestinum. Lirfustigin þroskast svo í fullorðna orma í þörmunum og festast svo á sinn stað og skilja út ný egg.

FORVARNIR OG MEÐHÖNDLUN

Mikilvæg atriði þegar tekin er ákvörðun um ormahreinsun:

 • aldur hestsins
 • árstíð; er hesturinn í haga eða á húsi
 • tíðarfar
 • beitarálag
 • lífsferill ormanna
 • virkni ormalyfsins

Ormahreinsun felur ekki eingöngu í sér að útrýma eða minnka ormasmit í viðkomandi hesti heldur einnig að minnka smitálag í haganum og/eða í umhverfi hestsins. Erfitt er að gefa út almennar ráðleggingar varðandi ormahreinsun hrossa en mikilvægt er að hafa eftirfarandi atriði í huga:

 • Flest ormalyf drepa fullorðnar þráðorma-tegundir og því finnast ekki egg í saur í nokkurn tíma
 • Verkun gegn lirfustigunum er mismunandi þannig að lirfurnar geta haldið áfram að þroskast og því er stundum nauðsynlegt að ormahreinsa að nýju t.d. að vori
 • Folöld og trippi þarf að ormahreinsa oftar þar sem þau hafa ófullþroskað ónæmiskerfi, sýkjast oftar og skaðsemi ormanna er mest í ungviðinu
 • Til að verja hagann smiti er æskilegt að gefa ormalyf amk 2 sólarhringum aður en sleppt er og áður en skipt er um beitarhólf
 • Gera má ráð fyrir að smit sé í hámarki snemma að vetri til og því er æskilegt að ormahreinsa þegar hross eru tekin á hús – t.d. á nýsmit með bandormi sér fyrst og fremst stað í haga


Heimildir

• Matthías Eydal, 2006. Sníkjudýr í hrossum. Freyr, 8. tbl, 2006, bls 13-15.
• Helgi Sigurðsson, 2001. Hestaheilsa. Eiðfaxi ehf.
• Susan E. Aiello (ritstjóri). 1998. The Merck Veterinary Manual, 8th ed. Merck & Co., Inc. U.S.A.
• Lyfjastofnun. 2014. Sérlyfjaskrá. Sótt 17.11.2014, www.serlyfjaskra.is

Hrund Hólm dýralæknir tók saman í nóvember 2014