Tennur og tannhirða
 
 
Sjúkdómar í tönnum og munni er algeng ástæða þess að komið sé með dýr til dýralæknis. Meðhöndlun er möguleg í mörgum tilfellum en forvarnir eru alltaf besti kosturinn.

Hvolpar og kettlingar fæðast tannlausir. Mjólkurtennurnar koma upp þegar þeir eru 3-6 vikna gamlir og tannskipti verða við 3-7 mánaða aldur (þetta gerist nokkru fyrr hjá köttum en hundum). Fullorðnir hundar hafa 42 tennur en fullorðnir kettir 30 tennur. Sérstaklega hjá smáhundum kemur það fyrir að tannskipti ganga ekki eðlilega fyrir sig og þeir fella ekki mjólkurtennurnar þrátt fyrir að fullorðinstennurnar komi upp. Þetta á einkum við um framtennur og vígtennur í efri góm. Hafi mjólkurtennurnar ekki losnað við 7-8 mánaða aldur er nauðsynlegt að láta taka þær, annars verða þær til vandræða.

Rannsóknir hafa sýnt að allt að 70% fullorðinna hunda og katta þjást af einhvers konar tannsjúkdómum. Tannskemmdir eins og þekkjast hjá fólki er ekki algengt vandamál hjá gæludýrum en hins vegar er tannsteinsmyndun og tannholdsbólga afar algengt vandamál sem getur leitt til alvarlegra skemmda á tönnum, tannholdi og jafnvel kjálkabeini sé ekkert að gert. Tannsteinn myndast af matarleifum og bakteríum sem safnast upp í kringum tennurnar. Það veldur ertingu á tannholdinu sem verður rautt og bólgið. Sé tannsteinninn ekki fjarlægður safnast hann upp undir tannholdinu sem smám saman eyðist. Einkenni slíkrar tannholdsbólgu eru m.a. viðvarandi andremma, blæðing úr tannholdi, lausar tennur og léleg matarlyst. Algengara er að hundar af litlum tegundum eigi við tannvandamál að stríða en stórir hundar. Ástæðan er í raun plássleysi í munninum á þeim. Fullorðnir kettir sem fá eingöngu blautfóður eru oft með ansi mikinn tannstein.

Mikilvægt er að eigendur skoði reglulega upp í kjaftinn á hundum og köttum og fylgist með ástandi tanna og tannholds. Með þessu móti venst dýrið líka tannskoðun sem er hluti af heilbrigðisskoðun hjá dýralækni. Nokkur ráð eru til að halda tönnunum hreinum. Ýmis nagbein (þetta á ekki við um ketti) eru gagnleg í þessu tilliti og því lengur sem það tekur hundinn að naga það, því betra. Þurrfóður er betra fyrir tennurnar en blautfóður og sumar tegundir þurrfóðurs innihalda auk þess sérstök efnasambönd sem draga úr tannsteinsmyndun. Tannburstun er þó besta leiðin til að fyrirbyggja tannvandamál. Auðvitað er nauðsynlegt að hundurinn eða kötturinn leyfi eigandanum yfirleitt að eiga við tennurnar og fara ber að öllu með gát. Til eru sérstakir tannburstar fyrir dýr en mjúkir barnatannburstar eru góðir til að byrja með. Ekki er þörf á að nota tannkrem. Gott er að byrja á einni tönn og þegar hundurinn eða kötturinn er farinn að venjast burstuninni eru fleiri tennur teknar.

Sé tannsteinn þegar farinn að safnast upp er hægt að láta fjarlægja hann. Það er gert í deyfingu eða svæfingu með tæki sem myndar hátíðnihljóðbylgjur sem brjóta upp steininn. Tennur sem eru illa farnar eru fjarlægðar. Oft er dýrið svo sett á sýklalyfjakúr í framhaldi af tannhreinsun. Hafið í huga að illa farnar tennur og sýkt tannhold getur valdið hundum og köttum mjög miklum óþægindum og orsakað alvarleg heilsufarsleg vandamál.

Hrund Hólm 2008